Blogg í námi og kennslu

Þegar ég heyri minnst á blogg þá fer ég aftur til 2005 því mér finnst enginn nota þetta í dag nema bitrir karlar sem eru að kvarta undan öllu á milli himins og jarðar (og enginn les). Það kom mér því skemmtilega á óvart þegar ég uppgötvaði að blogg er nokkuð vinsæll kennslumiðill vestanhafs og er þá beint að börnum á grunnskólaaldri og jafnvel yngri.

Theedublogger.com gerði könnun meðal kennara um hvernig þeir nota þetta verkfæri og það sem kom oftast upp var:

  • Samvinna við erlenda skóla og að fá raunverulega lesendur að verkefnum
  • Skrifa útdrætti úr efni sem farið hafði verið yfir
  • Umgjörð fyrir samvinnuverkefni nemenda og umræður
  • Upplýsingaveita til foreldra/umráðamanna

Kostir þess virðast vera margir, þar má nefna:

  • Ef nemendur eru látnir vinna verkefnin sín þannig að lokaútkoman á að birtast á bekkjarblogginu, þá eru góðar líkur á því að nemandinn setji meiri metnað í verkið vitandi að foreldrar og félagar hafi kost á að skoða útkomuna (kennari er ekki síðasti viðkomustaður ritgerðarinnar áður en hún endar á haugunum).
  • Nemendur fá æfingu í því að eiga samskipti á netinu og kennari getur leiðbeint þeim með að hafa gagnrýni uppbyggilega.
  • Nemendur fá tækifæri til að læra af öðrum (peer-to-peer learning) sem virkar mjög vel fyrir marga.
  • Nemendur kynnast því hvernig bloggkerfi virka.

Slík blogg reyna mismikið á nemendur á ólíkan hátt. Sumum gæti þótt óþarflega flókið að setja textann inn í bloggkerfi í samanburði við að skrifa texta niður í word og ýta á “print”. Öðrum nemendum gæti þótt erfitt að birta texta og verkefni sem þeir hafa búið til á svona opinberan hátt, þar sem allir geta gagnrýnt. En í staðinn fyrir að kalla þetta ókosti þá er einnig hægt að sjá þetta sem tækifæri fyrir þessa nemendur til að taka á þessu í vernduðu umhverfi (miðað við læst blogg, sjá neðar).

Blogg virðist því verkfæri sem við megum skoða betur til að auka hæfni nemenda í grunnskólum landsins. Það kemur ekki í stað neins sem fyrir er kennt, heldur bætir annarri vídd í kennsluna sem gerir nemendunum gott. Gæta þarf þess þó að bloggið sé læst þannig að einungis þeir sem eiga erindi á það hafi aðgang því (kennarar, nemendur og foreldrar/forráðamenn).

Til að koma áhugasömum af stað má finna frekari upplýsingar um blogg og kosti þeirra í kennslu á heimasíðu educatorstechnology.com

Heimildir:
theedublogger.com
educatorstechnology.com